Hvar var Saumastofa Akureyrar?

Auglýsing úr Alþýðumanninum 18. febrúar 1936
Auglýsing úr Alþýðumanninum 18. febrúar 1936

Það var í október 1929 sem hlutabréf féllu í verði í kauphöllinni í Wall Street í New York og um ári síðar tók afleiðinganna að gæta á Akureyri.  Atvinna dróst saman og viðskiptin gengu hægar.  Stærri og stærri hluti tekna bæjarsjóðs fór til fátækraframfærslu og árið 1935 fór liðlega fimmtungur teknanna í þennan málaflokk.  Neyðin fór vaxandi og ljóst var að bæjaryfirvöld yrðu að gera eitthvað í málinu.  Samið var við Hjálpræðisherinn um rekstur mötuneytis, sem tók til starfa í október 1935 í Laxamýri (Strandgötu 19b). Þangað gat fólk komið og satt hungur sitt, ef það gat sannað fátækt sína.  Líklega stóðu þessar matargjafir yfir í tvö ár.


En fleira þurfti að koma til, brýnt var að koma atvinnulífinu í betra horf.  Í nefndum bæjarins var rætt um að smíða fleiri tunnur, um almenna atvinnubótavinnu og líka um atvinnu fyrir konur.  Á bæjarstjórnarfundi 24. september 1935 flutti Erlingur Friðjónsson eftirfarandi tillögu: 

Bæjarstjórnin ályktar að koma á fót og starfrækja sauma- og prjónastofu fyrir atvinnulaust kvenfólk í bænum, ef efni til hennar fengist hjá kaupfjelögum og kaupmönnum bæjarins, er taki svo við því, sem unnið er á vinnustofu þessari og greiði vinnulaun, er svarar til þess, að það sem unnið er á vinnustofunni kosti álíka mikið og væri það keypt frá útlöndum.  Hafist ekki upp sæmileg vinnulaun og annar kostnaður við vinnustofu þessa með því, er kaupfjelög og kaupmenn greiða á þennan hátt greiðir bæjarsjóður það sem á vantar.  Bæjarstjórnin kýs 3 manna nefnd til að annast framkvæmdir málsins.

Tillagan var samþykkt en ekki var ástæða til að kjósa nýja nefnd, ,,mötuneytis-nefndin“ var látin skoða málið og Saumastofa Akureyrar komst á laggirnar.  Í febrúar 1936 var augýst eftir forstöðukonu, sem átti jafnframt að vera ráðunautur framfærslunefndar við kaup á fatnaði og í mars var Gróa Hertervig ráðin til starfans.

Tilvist saumastofunnar fór ekki hátt, forsvarsmönnum bæjarins varð ekki tíðrætt um hana né heldur bæjarblöðunum.  Það eina sem minnir á tilvist stofunnar eru árlegar færslur í bæjarreikningana. Saumastofan var fyrst á fjárhagsáætlun árið 1935 og síðan árlega til 1941. Síðustu færslur í viðskiptabækur Saumastofu Akureyrar eru í september 1941. Það litla sem varðveitt er á safninu frá þessu fyrirtæki eru þrjár viðskiptabækur og fáeinir stakir reikningar. Mörgum spurningum er ósvarað um fyrirtækið, t.d. kemur ekki fram hvar saumastofan var til húsa, ekki hve margar konur unnu þarna, hvort kaupmenn lögðu til efni o.fl.  Allar viðbótarupplýsingar eru vel þegnar.

Við gerð fréttarinnar var stuðst við Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason IV bindi, fundargerðir fjárhagsnefndar, framfærslunefndar og bæjarstjórnar, auk viðskiptabóka frá Saumastofu Akureyrar.