Húsmæðraskóli Akureyrar

Húsmæðraskóli Akureyrar
Húsmæðraskóli Akureyrar

Húsmæðraskóli Akureyrar var settur í fyrsta sinn 13. október 1945.  Aðdragandann að stofnun skólans má rekja allt til ársins 1915 þegar félagskonur í Kvenfélginu Framtíðin hófu umræðuna en það var þó ekki fyrr en um og eftir 1940 sem verulegur skriður komst á málið.  Samþykkt bæjarstjórnar frá 1934 sýnir að bæjaryfirvöld vildu gjarnan að hér yrði húsmæðraskóli en það var ekki fyrr en eftir að Alþingi samþykkti lög um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum árið 1941 sem boltinn fór af stað.  Húsmæðrafélag Akureyrar, stofnað árið 1942, vann líka ötullega að málinu s.s. með fjársöfnunum.

Fyrsti fundur byggingarnefndar Húsmæðraskólans var haldinn 20. júní 1942 og byrjað var að byggja skólahúsið, eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, árið 1944.

Þegar skólinn hóf starfsemi sína voru námsmeyjarnar 48 og fjölda umsókna var hafnað og næstu árin var aðsókn að skólanum mjög góð.  Auk dagskólans var farið að bjóða upp á stutt námskeið skólaárið 1947-48.

Um og eftir 1950 var hins vegar farið að draga mjög úr aðsókn að skólanum og voru t.d. umsóknir ekki nema 13 haustið 1951.  Rætt var um að flytja Húsmæðrakennaraskóla Íslands norður en sú stofnun var á hrakhólum í Reykjavík og í febrúar 1955 var svo komið að samþykkt var í bæjarstjórn að afhenda Kvenfélaginu Framtíðinni skólann fyrir elliheimili.  Til þess kom þó ekki en síðar á þessu sama ári var ákveðið að einskorða skólahaldið við kvöldnámskeið. 

Allt til 1971 var skólinn fyrst og fremst námskeiðsskóli en hluti hússins var nýttur af öðrum, einkum Gagnfræðaskólanum og Iðnskólanum.  Á skólaárinu 1971-72 var dagsskóli tekinn upp að nýju, þ.e. frá áramótum og til vors en fram að áramótum voru í boði stutt námskeið fyrir húsmæðraefni og nám fyrir matsveina á fiski- og flutningaskipum.  Námskeiðin voru vel sótt og oftlega þurfti að hafna umsóknum.  Síðar gátu nemendur Menntaskólans tekið valgreinar í skólanum.

Þótt ekki færi mikið fyrir Húsmæðraskólanum í skólaflórunni á Akureyri á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var talsvert um hann rætt í bæjarkerfinu.  Einkum voru húsnæðis- og heimavistarmál í deiglunni en það að engin heimavist var við skólann þótti standa honum fyrir þrifum.  Á áttunda áratugnum kom framtíð skólans inn í umræðuna um skipan framhaldsmenntunar á Akureyri og kom ýmislegt til greina í því efni.  Niðurstaðan varð sú að 1. júní 1984 varð skólinn hluti af Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Þegar gluggað er í fundargerðir skólanefndar skólans má sjá að í maí 1978 heitir hann orðið Hússtjórnarskóli Akureyrar en allt fram að því er hann nefndur Húsmæðraskóli Akureyrar í fundargerðabókunum.  Í blöðum er hann stundum nefndur Húsmæðraskólinn á Akureyri en oftast Húsmæðraskóli Akureyrar.