Hólmfríður M. Jónsdóttir (1907-1986) magister

Hólmfríður Margrét Jónsdóttir
Hólmfríður Margrét Jónsdóttir

Hólmfríður Margrét Jónsdóttir fæddist á Akureyri 5. maí 1907. Móðir hennar var ættuð úr Hörgárdalnum og var ekkja með tvö börn á Akureyri. Faðirinn var skipstjóri frá Ísafirði. Foreldrar Hólmfríðar gengu ekki í hjónaband og móðirin var ein með börnin sín þrjú um skeið á Akureyri en þau fluttu svo í Mývatnssveit þar sem Hólmfríður ólst upp.

Hólmfríður fór í Alþýðuskólann á Laugum í Reykjadal 1925-27 og síðan í Kennaraskólann og lauk þaðan prófi 1929. Hún tók gagnfræðapróf á Akureyri 1930 og stúdentspróf í Reykjavík 1933 en eftir það lá leiðin til Noregs. Hólmfríður las norsku, þýsku og ensku við Oslóarháskóla og varð cand.mag í þremur tungumálum 1948. Á námsárum sínum í Noregi vann hún fyrir sér með kennslu og til þess að auðvelda sér leið að námsstofnunum tók Hólmfríður norskt kennarapróf.

Að loknu háskólanámi kom Hólmfríður heim til Íslands og kenndi við Gagnfræðaskólann á Ísafirði og Kvennaskóla Ísafjarðar frá 1948 til 1959 að einu ári undanskildu er hún var við nám í Bandaríkjunum. Hólmfríður flutti til Akureyrar 1959 og kenndi við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1959-61 en þá flutti hún sig um set og byrjaði að kenna við MA. Hún kenndi við Menntaskólann til 1974 en var prófdómari þar til 1985. Eftir að Hólmfríður hætti að kenna í MA kenndi hún í nokkur ár við Námsflokka Akureyrar og var einnig með einkakennslu.

Hólmfríður var gáfuð kona og skemmtileg. Hún var hrókur alls fagnaðar á skemmtunum og á ferðalögum, hélt skemmtilegar tækifærisræður og gaf tóninn í fjöldasöng.

Hólmfríður var barnlaus en giftist tvisvar og skildi tvisvar. Hún lést á Akureyri 1986.

Hér má sjá yfirlit yfir það sem varðveitt er á safninu frá Hólmfríði.