Herinn kemur til Akureyrar

Hermennirnir ungu voru uppgefnir og sjóveikir við komuna til Akureyrar, lögðust margir til hvílu str…
Hermennirnir ungu voru uppgefnir og sjóveikir við komuna til Akureyrar, lögðust margir til hvílu strax á bryggjunni. Í bakgrunni má sjá forvitna bæjarbúa virða fyrir sér „árásarliðið“.
– Mynd frá Minjasafninu á Akureyri.

Þeir komu til bæjarins með varðskipinu Ægi en Akureyringar höfðu vitað það í nokkra daga að þeir voru á leiðinni og bjuggust við hinu versta. Um bæinn gengu sögur, óvissan var mikil og vangaveltur ýmsar; hvernig yrðu þeir í háttum, mun koma þeirra leiða til  loftárása og yrði konum óhætt?  Svo komu þeir og dagurinn var 17. maí og árið 1940.

Þegar fréttist af varðskipinu þar sem það kom siglandi inn fjörðinn með olíu og breskt hernámslið varð uppi fótur og fit. Fólk þusti niður að bryggju í tugatali. Ægir lagðist að og uppskipun hófst. Hermennirnir, ungir og óharðnaðir piltar frá Englandi, hentu rifflum sínum í eina kös á bryggjuna.
„Árásarliðið“ reyndist aðeins tæplega 30 manns og meginhlutverk þeirra átti að vera að gæta fluglendingarstaðarins inni á Melgerðismelum. Það fór lítið fyrir liðinu og það virtist ekki til stórræða. Einhverjir liðsoddar fóru samt að stað og heimsóttu Þjóðverjana sem bjuggu í bænum, þeir voru yfirheyrðir og einn þeirra, Frank Ludwig Hüter var handtekinn.

Innan skamms voru Bretarnir búnir að hreiðra um sig í miðjum kaupstaðnum, í húsinu sem Akureyringar kölluðu Rotterdam (Hafnarstræti 102) en foringi liðsins bjó um sig á Hótel Goðafossi, ásamt túlki sínum. Fljótlega varð ljóst að hinir óboðnu gestir voru gjörsamlega úrvinda af þreytu, varla voru þeir komnir í miðbæinn en megnið af innrásarliðinu lagði sig útaf á stéttinni þvert fram í götuna. Urðu vegfarendur að passa sig svo þeir træðu ekki á „árásarmönnum“ sínum og vopnum þeirra.

Tveimur dögum eftir komu Ægis lagðist breski tundurspillirinn H.M.S. Foxhound að Torfunefsbryggju. Í land þrammaði nýtt setulið, fyrra setulið fór á brott með tundurspillinum ásamt einum fanga, fyrrnefndum Frank Hüter. Nú tók herinn til við að koma sér almennilega fyrir og undirbúa vörn bæjarins. 

 

Heimildir:

Hskj.Ak. A-1/192. Skjöl frá bæjarstjórn, bæjarstjóra og bæjargjaldkera. Innkomin bréf o.fl. 1940. Samningur um notkun timburskúrs á Höpfnerbryggju.
Jón Hjaltason. (2009). Saga Akureyrar. V. bindi. Akureyri: Akureyrarbær.
Jón Hjaltason. (1991). Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar.