Ferð um Ódáðahraun 3. - 12. ágúst 1940

Vegna jarðskjálftanna í og við Bárðarbungu grípum við niður í dagbók Ólafs Jónssonar úr ferð hans og Gunnbjörns Egilssonar um Ódáðahraun í ágúst 1940.

6. ágúst

Við vöknuðum kl. 2 og er þá ennþá hálfrokkið.  Ferðbúnir erum við Kl 4. Veðrið er prýðilegt kyrt og bjart.  Þó er ofurlítill þokuslæðingur á Herðubreið, en Kverkfjöllin eru hrein, sömuleiðis Snæfellið.

Við förum fyrst suður með vötnunum og síðan suður í hraunið, stefnum milli Lofts og Upptyppinga ... Smám saman verða hraunhólarnir strjálli en sandflesjurnar stækka og vikurinn eykst og þegar komið er suður á móts við Hlaupfell göngum við á óslitnum þykkum vikri.  Þá tökum við af okkur þungu gönguskóna en setjum upp létta skó ... og okkur skilar vel suður vikrana í áttina til Vaðöldunnar.

Upptyppingarnir, sem gnæfa til vinstri við okkur, eins og risavaxnir píramidar verða smátt og smátt afturúr og Loftur sem langt norðan af öræfum sýnist heilmikill keilumyndaður tindur, en sem nú er bara lágkúrulegur aflangur móbergshnjúkur, gefst líka upp að fylgja okkur, en framundan hvelfist hvolfþak Vaðöldunnar hærra og skýrara. Við göngum í kapp við klukkuna og hún er 10 ½ þegar við nemum staðar við rætur Vaðöldunnar.

Við áum samt ekki lengi heldur leggjum fljótlega til uppgöngu ... Kl 12 komum við loks upp ... Útsýnin er dásamleg suður yfir sandana til jökulsins sem teygir sig óslitinn austan frá Snæfelli vestur að Vonarskarði.  Í miðri þessari miklu fannþekju rísa Kverkfjöllin há og hrikaleg að vanda með gapandi gin og lafandi tungu, hvæsandi brennisteinsreykjum frá risavöxnum suðukötlum. Við staðnæmumst þarna nokkra stund til að taka myndir... Rétt vestan við okkur er ofurlítil alda ... Svona fyrir siðasakir göngum við þangað ... Nú erum við fyrst komnir á háölduna og sjáum nú vestur til Dyngjufjalla...Við hlöðum dálitla vörðu hér á háöldunni.  Sennilega hefur enginn komið hér áður.  Svo höldum við suður af öldunni sem er til muna brattari að sunnan en norðan. Þegar við komum dálítð niður eftir öldunni blasir Svartá við. Hún kemur upp úr svörtum sandi í mörgum uppsprettum á tiltölulega litlu svæði ... Lítill gróður er við Svartá, mosaþembur á norðurbakkanum og strjálingur af hvönn.  Auðsjáanlega á allur gróður hér í vök að verjast vegna sandfoksins.  Við tjöldum á álitlegustu mosaþembunni, dálitlum tanga rétt neðan við upptökin...

Kl 4:40 leggjum við svo í leiðangur niður með ánni.  Tilgangurinn er að skoða hana, leita að breinahrúgu sem Pétur í Reykjahlíð sá hér yfir ána 1933 ... Við erum komnir niður undir ármót og í þann veginn að verða vonlausir um að finna beinahrúguna hans Péturs þegar við komum að dálitlum helliskúta fast fram við ána og þar eru beinagrindur af nokkrum kindum ... Meðan Gunnbjörn er við myndatökuna geri ég í flýti riss af Kverkfjöllum.