Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli

Einar með harmonikkuna
Einar með harmonikkuna

Einar Kristjánsson var fæddur að Hermundarfelli í Þistilfirði 26. október árið 1911. Hann gekk í farskóla sveitarinnar og síðar í unglingaskóla í Lundi í Öxarfirði og einn vetur í Reykholti í Borgarfirði og annan á Hvanneyri.

Einar kvæntist Guðrúnu Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði árið 1937. Þau bjuggu fyrst á Hermundarfelli en síðar reistu þau nýbýlið Hagaland og bjuggu þar frá 1942 til 1946 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu upp frá því. Þeim varð fimm barna auðið. Einar var lengst af húsvörður við Barnaskóla Akureyrar, vinsæll og velmetinn af samstarfsfólki og nemendum.

Einar og fjölskylda hans bjuggu lengi vel í barnaskólanum en fluttust síðan í Þingvallastræti 26 og loks í Víðilund 6i þar sem Einar bjó þegar hann lést.

Fyrsta ljóðabók Einars kom út árið 1952 (Septemberdagar) en alls urðu bækur hans 14.  

Þótt Einar yrði talsvert kunnur fyrir ritverk sín þá varð hann landskunnur sem útvarpsmaður, einkum fyrir þætti sína Mér eru fornu minnin kær á árabilinu 1980-1990. Þættirnir innihéldu ýmsan þjóðlegan fróðleik og vangaveltur um lífið og tilveruna og voru samkvæmt skoðanakönnunum eitthvert vinsælasta útvarpsefnið í mörg ár.

Einar átti heima á Akureyri í hálfa öld. Honum þótti vænt um bæinn og var stoltur af honum. Hann fékk mörg tækifæri til þess að sýna það í verki því að oft var til hans leitað á hátíðis- og tyllidögum og hann beðinn að semja ljóð, leikþátt eða flytja minni bæjarins.

Einar lést á Akureyri árið 1996 tæplega 85 ára að aldri.

Textinn er að verulegu leyti fenginn af síðu á netinu og þar getur þú lesið meira um Einar.

Akureyrarskáldin skiptust gjarnan á jólakortum og þá oftar en ekki með einni vísu eða svo. Hér á eftir má sjá þrjú kort frá Einari til Heiðreks Guðmundssonar frá Sandi.