Egg soðin í heitri laug í flæðarmálinu í Hrísey

Brekka í Hrísey 1972. Mynd Jóhannesar Óla Sæmundssonar
Brekka í Hrísey 1972. Mynd Jóhannesar Óla Sæmundssonar

Hrísey á Eyjafirði er 11,5 km2 að flatarmáli, um 7 km á lengd og 2,5 km á breidd þar sem hún er breiðust og er hún önnur stærsta eyja á Íslandi. Þar hefur verið búið allt frá landnámi.
Í Héraðsskjalasafninu á Akureyri eru til margvísleg skjöl frá Hrísey,

eða sem tengjast Hrísey á einhvern hátt, bæði frá sveitarfélaginu, félögum, fyrirtækjum og einstaklingum, sbr. skjalaskrár safnsins.

Jóhannes Óli Sæmundsson, skólastjóri og námsstjóri með meiru skildi eftir sig ýmis handrit og þar á meðal íbúaskrár, örnefnaskrár, myndir  o.fl.  Hér er gripið niður í örnefnalýsingu Jóhannesar Óla fyrir Hríseyjarhrepp.
 „ Austurhlið Hríseyjar er í höfuðatriðum strikbein á löngum kafla, eða þegar kemur austur fyrir allstóra vík, sem liggur upp að Eyjarhölunum og heitir TRÖLLHÖFÐAVÍK. Veit gleiður bugur hennar á móti norðnorðaustri. Stórt sker inni í víkinni er TRÖLLHÖFÐINN, klofinn klettur, allhár úr sjó. Austan að vík þessari liggur LAUGARKAMBUR, eða LAUGARKAMBAR, ýmist sagt í eintölu eða fleirtölu. Er hið síðara meira réttnefni, og brattasti hluti kambsins af sumum kallaður LAUGARKAMBATÖNG. Þar er hlein nefnd BEKKUR. Í LAUGARKAMBAVÍK er mikill jarðhiti, en flestar uppspretturnar alveg undir sjó. Aðeins ein er upp úr á fjörunni, kölluð LAUGIN. Þar hafa sjómenn soðið sér egg og hitað á katlinum. Til marks um jarðhitann er það að frostaveturinn 1917-18, þegar samfrosta hafís þakti Eyjafjörð vikum saman, fraus aldrei saman á tveim stöðum þarna við Laugarkambatöngina.“

Merkingar JÓS: 1 Brimnes, 2 - , 3 Magnúsar Halldórssonar hús, 4 Grund, 5 Breiðablik, 6 Þorvaldar Jónssonar hús, 7 Hæli, 8 Júl. Stef (Sæból), 9 Brekka, 10 Hagi, 11 Syðstibær, 12 Hús Jóh.Sigurðss. (Önnuhús), 13 Verkstæði, 14 og 15 Kaupfélagið, 16 Kirkjan, 17 Árnahús