Bæjarlistamaður ráðinn árið 1954, hugmyndir ollu deilum

Árið 1954 var Jónas S. Jakobsson ráðinn sem sérstakur bæjarlistamaður, með það hlutverk að skreyta bæinn.  Um haustið skilaði Jónas nokkrum tillögum.  Á Ráðhústorg vildi hann setja gosbrunn eða styttu af Helga magra.  Upp af Torfunefsbryggju átti að gera hringmyndaðan hólma og setja á hann táknrænt listaverk fyrir skip og flughöfn. 

Á Eiðsvellinum vildi hann reisa háa súlu með sögulegum myndum eða stóran myndskreyttan gosbrunn, við andapollinn og kirkjutröppurnar vildi hann setja styttur, við Hótel KEA táknræna stóra mynd fyrir samvinnuna o.fl.  Hérna eru nokkur sýnishorn frá Jónasi.  

Fyrsta verkið sem Jónas gerði fyrir bæinn var Landnemarnir.  Jónas vildi helst koma verkinu fyrir á Eiðsvellinum og hafa það stórt og myndarlegt.  Í forgrunni áttu þau Helgi magri og Þórunn hyrna að vera með skip sitt en að baki þeim gerði Jónas ráð fyrir 10 til 15 metra hárri súlu með úthöggnum myndum úr sögu Eyjafjarðar.  Á toppi súlunnar vildi hann hafa ,,nútímabóndann“ sem bendir syni sínum (framtíðinni) út yfir landið.  Ekki féllu þessar hugmyndir Jónasar í kramið, bæði  voru menn lítt ánægðir með staðinn og stærðina.  Endirinn varð sá að Landnemunum var komið fyrir hjá útsýnisskífu Ferðafélags Akureyrar á Hamarkotsklöppum í mikið breyttri  mynd.  Verkið var afhjúpað sumarið 1956.

En fleiri listaverk Jónasar ollu deilum.  Jónas gerði styttu af nakinni konu og lagði til að henni yrði komið fyrir framan við húsið Geislagötu 5.  Bæjarstjórnin samþykkti það en hvarf svo frá þeirri ákvörðun eftir að ýmsir málsmetandi menn unnu mjög gegn þeirri hugmynd.

Um störf Jónasar og umræðuna sem hugmyndir hans fengu má lesa meira í 5. bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason bls. 181-4.