Anna Kristinsdóttir (1897-1982) húsfreyja Fellsseli í Kinn

Petra María Sveinsdóttir.  Mynd úr safni Önnu Kristinsdóttur.
Petra María Sveinsdóttir. Mynd úr safni Önnu Kristinsdóttur.

Anna fæddist á Akureyri 1897 eða fyrir 120 árum síðan. Foreldrar hennar voru Jónína Pálsdóttir (1878-1947) og Kristinn Jónsson (1876-1921) en þau voru ógift og áttu ekki frekari samleið. Anna fór í fóstur sex mánaða gömul að Æsustaðagerði í Saurbæjarhreppi, til hjónanna Ingibjargar Tómasdóttur (1846-1919) og Sigfúsar Sigfússonar (1846-1919). Sigfús og Ingibjörg eignuðust ekki börn en ólu upp fimm börn og var Anna Kristinsdóttir eitt þeirra. Anna var hjá fósturforeldrum sínum á meðan þau lifðu og fór svo í vinnumennsku á bæjum í Eyjafirði. Eftir það fór hún að Fellsseli í Kinn en þar bjó ekkjumaðurinn Kristján Ingjaldsson, ásamt fimm ára dóttur sinni og tengdamóður.

Anna og Kristján gengu í hjónaband í apríl 1930 og bjuggu í Fjallsseli til 1966. Þau eignuðust ekki börn en auk dóttur Kristjáns ólu þau upp dreng.

Anna var vel gefin og vel lesin og þótti einkar lagin við sauma og prjón. Hún var lengi í stjórn Kvenfélags Þóroddsstaðarsóknar og tók þátt í starfi ungmennafélagsins Gaman og alvara.

Þegar Anna og Kristján brugðu búi fluttu þau til Akureyrar. Á Akureyri tók hún þátt í starfi Hjálpræðishersins enda trúuð kona.

Erfiðljóð Kristínar Sigfúsdóttur (1876-1953) skáldkonu frá Kálfagerði um Ingibjörgu Tómasdóttur í Æsustaðagerði er svona :

Það heyrist enginn héraðsbrestur
er hnígur kona þreytt;
að þeim er talinn missir mestur
sem metorð eru veitt.
Þó ber eins liti bjarta og hreina
það blóm er grær í skjóli laufgra greina.
Og falið augum fjöldans er
en fegurð ei til sýnis ber.

Ef letrað væri allt lífsstríð þjóða
um liðið alda skeið
og metið allt hið göfga góða
sem greiðir þroska leið.
Mörg kona gleymd í koti lágu
við kærleiksstörf er samtíð mat að smáu
í þeirri framsókn fyndist skráð
þótt fengi ei laun né kross af náð.

Í gleði og sorg með gætni og sóma
þú gekkst hér lífs á braut;
við sumarfrið og sólarljóma
var sigruð hinsta þraut.
Þitt starf var helgað hinum þjáðu
þeim hælislausu vinasnauðu smáðu.
Þú vannst ei fyrir heimsins hrós
en hjartans þrá að auka ljós.

Þín minning líður létt í blænum
um leiðir þínar hér
hún talar ljúft í litla bænum
um lífsstarf kærast þér.
Hún sendir huggun systur þinni
er saman með þér átti friðsælt inni.
Hún mýkir hennar saknaðssár
og sælu blandar hvert eitt tár.

Hún býr hjá fósturbörnum þínum
er barstu á kærleiks mund.
Hún verndar örmum ver þau sínum
á vina kveðju stund.
Hún vekur ráð frá æskuárum
og er þeim viti á köldum jarðlífs bárum
Sem friðar bjarmi fagur skær
uns fylling innsta þráin nær.

Svíf heil á drottins ástarörmum
á ástvinanna fund.
Þú þráir hvíld frá þraut og hörmum
því þreytt og hrygg var lund.
Til nýrra starfa í nýjum heimi
með nýja krafta í ódauðleikans geimi.
En vina brjóstin bærast klökk
við beðinn þinn af ástarþökk.

Erfiljóðið er meðal þess sem er í skjalasafni Önnu Kristinsdóttur en nánara yfirlit yfir skjöl hennar er að finna hér.