Af Kötlugosi 1918

Úr dagbók Baldvins Bessa Gunnarssonar (1854-1923) frá því í október 1918.
Úr dagbók Baldvins Bessa Gunnarssonar (1854-1923) frá því í október 1918.

Kötlugos hófst 12. október 1918. Í gosbyrjun voru miklar jarðhræringar og fundust jarðskjáftar víða um Suðurland, eldingar sáust langt að og drunur heyrðust greinilega. Fljótlega tók að gæta öskufalls og var vindstaðan þannig í fyrstu að askan dreifðist mest vestur á bóginn. Daginn eftir að gosið hófst var svo mikið öskufall í Rangárvallasýslu að þar var ljós látið loga allan daginn. Þann dag féll einnig aska í Reykjavík. Á þriðja gosdegi snérist vindátt meira til suðurs, svo að askan barst til Norðurlands. Á Akureyri féll þá aska en þar var snjór og pollurinn ísilagður og varð þar allt grátt á skömmum tíma.

Baldvin Gunnarsson bóndi í Höfða skrifar í dagbók sína mánudaginn 14. október 1918:

Logn 4° fr mistur í lofti og hefir líka fallið eldfjallaaska í nótt svo snjórinn er grár á lit. Þeir komu úr Látrum kl 2 í morgun á öllum bátunum stokkhlöðnum og gátu tekið allan fiskinn, og fóru óðara að bera úr þeim og luku því fyrir miðdag. Fréttist að gamla Hekla væri að gjósa, svo þaðan er öskufallið. Alltaf mórauð kólga í suðri.

Þriðjudaginn 15. október skrifar hann:

N. breytuhríð 1°fr koldimmur í kring. Farið inn á Akureyri til að semja við fiskmatsmennina um að koma hingað. Fréttist að eldgosið væri frá Kötlu og öskufallið ógurlegt syðra, hafði gert svart myrkur yfir suðurlandið á laugardaginn. Á að slátra því síðasta í dag.