Á Héraðsskjalasafninu var 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar minnst með ýmsum hætti, m.a. með vikulegum pistlum tengdum afmælinu og sögu bæjarins og skjölum þar að lútandi á heimasíðu safnsins. Síðari hluta maí var sett upp sýning frá hátíðahöldum bæjarins á 100 ára afmælinu árið 1962. Hápunkturinn var þó afmælissýningin „Fólkið í kaupstaðnum“ en þar var íbúum Akureyrar árið 1862 gerð skil í ættfræði, myndum og skjölum. Sýningin var opnuð 24. ágúst og stóð út september.
Á sýningunni var sóknarmannatal Hrafnagilssóknar 31.12.1862 lagt til grundvallar. Íbúum á Akureyri voru gerð skil þannig að sérhver maður hvort sem hann var fullorðinn eða barn fékk ættfræðilega umfjöllun þar sem tilgreindir voru foreldrar, makar og börn. Uppskrift af manntalinu lá einnig frammi.
Á sýningunni voru skjöl sem tengjast fyrstu kaupstaðarbúunum, s.s. fæðingarvottorð, ljóðmæli, bréf, fundargerðir, sáttafundarboð, kaupsamningar, handrit að bókum, útgefnar bækur, borgarabréf og boðskort.