Safnkostur

 

Opinber skjöl:

Á Héraðsskjalasafninu eru varðveitt skjöl frá Akureyrarbæ, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppi, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppi og þeim hreppum sem áður voru á þessu svæði og hafa nú sameinast í fyrrnefnd sveitarfélög.  Einnig skjöl frá sýslunefnd, héraðsnefnd, byggðasamlögum og öðrum samstarfsverkefnum sveitarfélaganna. Ennfremur skjöl allra embætta, stofnana, fyrirtækja og annarrar starfsemi á vegum ofangreindra aðila. Skjölin koma að stærstum hluta inn á safnið þegar þau hafa náð 20-30 ára aldri en þar má þó finna margt yngri skjala.

Einkaskjöl:

Safnið varðveitir líka einkaskjöl, það eru skjöl frá einstaklingum, þ.e. hinum almenna borgara, háum sem lágum og frá félögum og fyrirtækjum á þeirra vegum þar sem ætla má að skjölin séu hluti af sögu héraðsins. Einkaskjölin veita oft aðra innsýn í í söguna en opinberu skjölin og því nauðsynlegt að halda þeim til haga. Sem dæmi um einkaskjöl má nefna bréfasöfn, dagbækur, bókmenntahandrit, frásagnir og þætti um menn og málefni, galdrakver, lækningabækur, handskrifuð sveitarblöð, ættartölur, örnefnaskrár, vottorð og prófskírteini, kaupbréf, afsöl, úttektir og skiptagjörðir, ábúendatöl og margt fleira.

Kirkjubækur og handbækur:

Á safninu eru einnig kirkjubækur, þ.e. prestþjónustubækur og sóknarmannatöl,  af öllu landinu á örfilmum, auk þess manntöl frá Akureyri og nágrannasveitarfélögum frá ýmsum tímum og dágott safn stéttatala, handbóka og bóka  um byggðasögu.

Í kirkjubækur skrifa prestarnir öll sín prestsverk, þ.e. skírnir, fermingar, giftingar, grefranir o.þ.h. en í sóknarmannatölum eru taldir upp íbúar á hverjum bæ eða húsi. Þessar heimildir nýtast vel þeim sem hafa áhuga á ættfræði og vilja vita meira um ættingja sína en nöfnin ein.